Ferilskrá

Ingibjörg Gunnarsdóttir
aðstoðarrektor vísinda og samfélags

Frá því að ég lauk doktorsnámi árið 2003 hef ég tekist á við fjölbreytt verkefni innan þeirra stofnanna sem ég hef starfað fyrir, Háskóla Íslands og eina af helstu samstarfsstofnunum skólans, Landspítala.

Á Landspítala tók ég virkan þátt í stjórnendaþjálfun, þar á meðal straumlínustjórnun og leiðtogaþjálfun. Á Næringarstofu Landspítala hafði ég mannaforráð, bar ábyrgð á útgáfu gæðaskjala og forgangsröðun klínískrar þjónustu. Til að auka skilvirkni og minnka álag innleiddi ég aukna teymisvinnu innan einingarinnar. Ég hef einnig sinnt klínískri vinnu.

Upplýsingar um starfsferil, þjónustu, rannsóknir og kennslu í þágu Háskóla Íslands, íslensks samfélags og alþjóðlegs vísindasamfélags má finna hér neðar á síðunni.

Starfsferill

2023 –
Aðstoðarrektor vísinda (og samfélags frá 2025), Háskóli Íslands (HÍ). 

2024
Forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, tímabundið starf frá 1.mars-30.júní. 

2023
Rannsókna- og gæðastarf, Næringarstofa Landspítala.

2013 – 2023
Forstöðumaður Rannsóknastofu í næringarfræði við HÍ og Landspítala / yfirnæringarfræðingur og síðar deildarstjóri á Næringarstofu Landspítala. 

2010 –
Prófessor, Matvæla- og næringarfræðideild, Heilbrigðisvísindasvið, HÍ. 

2008 – 20210
Dósent, Matvæla- og næringarfræðideild, Heilbrigðisvísindasvið, HÍ.

2006 – 2008
Dósent, Matvælafræðiskor, Raunvísindadeild HÍ. 

Námsferill

2003
Ph.D. í Næringarfræði, Háskóli Íslands.

1999
M.Sc. í Næringarfræði, Háskóli Íslands. Hluti meistaranáms fór fram við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn (nú Kaupmannahafnarháskóli).

1997
B.Sc. í Matvælafræði, Háskóli Íslands.

Rannsóknastarf

Undanfarin 25 ár hef ég komið að fjölbreyttum rannsóknum á sviði næringarfræði í samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknahópa. Síðastliðin 10 ár hef ég fyrst og fremst helgað mig rannsóknum á næringarástandi viðkvæmra hópa með áherslu á barnshafandi konur.

Ég hef tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Sem dæmi má nefna að ég var leiðandi höfundur kafla fyrir joð í 6. útgáfu Nordic Nutrition Recommendations 2022 og sérfræðingur í vinnuhópi fyrir 5. útgáfu sömu ráðlegginga 2012. Innanlands hef ég setið í fjölmörgum vinnuhópum og nefndum sem tengjast fagsviði mínu og rannsóknum, meðal annars á vegum Embættis landlæknis. Eins hef ég reynslu af þátttöku í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum.

Í rannsóknum mínum hef ég notið stuðnings bæði innlendra og erlendra rannsóknasjóða og lagt áherslu á að kynna rannsóknarniðurstöður á fjölbreyttum vettvangi, í alþjóðlegu vísindasamfélagi, á innlendum vettvangi og í samtali við hagaðila um hagnýtingu rannsóknanna.

Nýleg dæmi um áhrif rannsókna minna og samstarfsaðila eru breytingar á ráðleggingum til barnshafandi kvenna um joð og D-vítamín, stofnun ráðgefandi faghóps á vegum Embættis landslæknis um bættan joðhag Íslendinga sem vinnur nú meðal annars að áhættumati á notkun á joðbættu salti í brauð. Eins má nefna innleiðingu á skimun fæðuvals í upphafi meðgöngu sem hafin er í meðgönguvernd hérlendis.

Nánar um útgefnar vísindagreinar í rannsóknargáttinni.

Kennsla og leiðsögn í rannsóknatengdu framhaldsnámi

Ég hóf störf við Matvælafræðiskor, Raunvísindadeildar Háskóla Íslands árið 2006 og kom þar að kennslu í tveimur námskeiðum sem á þeim tíma voru í boði í grunnnámi í matvælafræði.

Sem annar af tveimur fastráðnum kennurum í næringarfræði við skólann á þessum tíma tók ég virkan þátt í uppbyggingu BS náms í næringarfræði sem tók í fyrsta sinn inn nemendur í nýrri Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði árið 2008. Fyrir þann tíma hafði aðeins verið boðið upp á meistaranám- og doktorsnám í greininni.

Auk kennslu við Matvæla- og næringarfræðideild hef ég komið að kennslu í næringarfræði við Hjúkrunarfræðideild og hitti reglulega nemendur í læknadeild til þess að kynna helstu næringarvandamál og áherslur í næringarmeðferð ef upp koma vandamál á meðgöngu. Ég hef tileinkað mér fjölbreytta kennsluhætti og er mjög meðvituð um mismunandi þarfir nemenda er kemur að námsmati og því hvernig námsefni er miðlað.

Útskrifaðir nemendur í rannsóknatengdu meistaranámi eru orðnir rúmlega 30 talsins, þar af yfir 20 þar sem ég hef sinnt hlutverki aðalleiðbeinanda. Oftar en ekki hafa niðurstöður meistaraverkefna nemenda minna verið birtar í vísindatímaritum, erlendum eða innlendum. Þrír nemendur hafa lokið doktorsprófi undir minni leiðsögn, en áður hafði ég tekið þátt í leiðsögn fimm doktorsnemenda sem meðleiðbeinandi eða meðrannsakandi.

Styrkir

Evrópskir og Norrænir rannsóknastyrkir

2016 – 2020 PROMISS
Prevention of malnutrition in senior subjects, Horizon 2020, grant No 678732.

2015 – 2017 EUthyroid
Towards the elimination of iodine deficiency and preventable thyroid-related diseases in Europe, Horizon 2020, grant No 634453.

2014 – 2018 MOODFood
Multi‐country collaborative project on the role of diet, food‐related behaviour, and obesity in the prevention of depression, EU FP7-KKBE-2013-2-1-01.

2013 – 2014 ProMeal
Prospects for promoting health and performance by school meals in Nordic countries, NordForsk (íslenskur ábm. ásamt Önnu Sigríði Ólafsdóttur)

2009 – 2010 A common Nordic monitoring system on diet, physical activity and overweight,
NICe (Nordic Innovation Centre) and NKMT (Nordic Working Group for Diet, Food & Toxicology).

Íslenskir rannsóknastyrkir

Rannsóknir sem hlotið hafa stuðning úr innlendum samkeppnissjóðum (utan HÍ og Landspítala) 

2021 – IceGut
Effect of Pre- and Postnatal Diets on the Infants Gut Microbiome in Iceland. Rannsóknasjóður Rannís, Öndvegisstyrkur (aðalumsækjandi var Viggó Þór Marteinsson en IG er ábm. rannsóknar gagnvart Vísindasiðanefnd).

2015 Næringarástand á meðgöngu
Þróun einstaklingsmiðaðrar næringarmeðferðar á meðgöngu. Tækniþróunarsjóður Rannís. Fjöldi styrkja frá HÍ og Landspítala tengjast þessari rannsóknaröð, auk framhaldsverkefna, meðal annars verkefnið IceGut.

2014-2016 Oral nutrition supplements vs. energy- and protein dense in between meals snacks, weight changes and functional capacity in chronic obstructive pulmonary disease; randomized controlled dietary intervention.
Rannsóknasjóður Rannís.

2007-2009 Iodine status of pregnant women, and adolescent girls.
Rannsóknasjóður Rannís.

Valin trúnaðarstörf

2023 –
Formaður Vísindanefndar háskólaráðs HÍ.

2023 –
Formaður framgangs- og fastráðningarnefndar HÍ.

2023 –
Formaður stjórnar Matskerfis opinberra háskóla.

2023 –
Stefnu- og gæðaráð HÍ.

2023 –
Forstöðumaður og formaður stjórnar Miðstöðvar framhaldsnáms HÍ.

2023 –
Einn fjögurra fulltrúa HÍ í stýrihóp um stofnun háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum.

2019 –
Vísindaráð Landspítala, skipuð af forstjóra 2019-2023 og 2023-2027.

2021 – 2022
Stjórn fasteignafélags Háskóla Íslands.

2021 – 2023
Dómnefnd Háskólans á Akureyri, formaður 2022-2023.

2018 – 2022
Kjörin fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráði Háskóla Íslands og varaformaður ráðsins 2018-2020 og 2020-2022.

2015-2022

Fulltrúi rektors í valnefndum Háskóla Íslands.

Valdar viðurkenningar

2023
Heiðursvísindamaður Landspítala

2014
Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs

Einkalíf

Ég fæddist í Reykjavík árið 1974, bjó á Akureyri fyrstu árin, fluttist til Svíþjóðar fjögurra ára gömul þar sem fjölskyldan dvaldi í fimm ár áður en við fluttum heim til Íslands, norður á Húsavík. Útskrifaðist með stúdentspróf frá Framhaldsskólanum á Húsavík í desember 1993 og hóf nám við Háskóla Íslands haustið 1994.

Eiginmaður minn er Ólafur Heimir Guðmundsson, viðskiptafræðingur og sérfræðingur í hagdeild hjá Hafnarfjarðarbæ. Saman eigum við þrjá drengi:

  • Elías Rafn (f.2000), atvinnumaður í knattspyrnu hjá Midtjylland í Danmörku. 
  • Gunnar Heimir (f.2002), BA í tónlist frá Liverpool Institute for Performing Arts (LIPA), starfar í Bretlandi. 
  • Björgvin Ingi (f.2004), nemandi á öðru ári í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. 

Íþróttir hafa ávallt skipað stóran sess í einkalífinu, en við hjónin eigum að baki langan feril sem landsliðsmenn í blaki og með félagsliðum okkar. Meistaraflokksferill minn hófst hjá Völsungi á Húsavík og blakdeild KA á framhaldskólaárunum, en á háskólaárunum spilaði ég fyrir Íþróttafélag stúdenta (ÍS). Rúmlega 20 ára keppnisferli lauk svo hjá HK í Kópavogi, samhliða foreldrastarfi í knattspyrnudeild Breiðabliks og blak- og borðtennisdeildum HK. Fyrir utan hefðbundið foreldastarf hef ég sinnt ýmsum störfum innan íþróttahreyfingarinnar. Má þar nefna setu í landsliðsnefnd Blaksambands Íslands, var formaður blakdeildar HK um tíma og fulltrúi í aðalstjórn HK.  

Gæðastundir með fjölskyldunni, góður matur, nærandi hreyfing (með tilheyrandi slökun á eftir) og nægur svefn er það sem skiptir mig mestu máli til að viðhalda lífsgleði og starfsorku.