Ingibjörg Gunnarsdóttir

aðstoðarrektor vísinda og samfélags

Ég hef tekið að mér leiðandi hlutverk á fjölbreyttum vettvangi og hef lagt áherslu á traust, heiðarleika og góð samskipti.

Ingibjörg Gunnarsdóttir

Framboð til rektors

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til embættis rektors Háskóla Íslands vegna áhuga á að taka þátt í að styrkja enn frekar hið góða starf innan skólans á komandi árum. Ég bý yfir reynslu sem getur nýst vel við mótun og innleiðingu mikilvægra umbótaverkefna innan skólans í samstarfi við þann mikla mannauð sem skólinn býr yfir. Ég hef tekið að mér leiðandi hlutverk á fjölbreyttum vettvangi og hef í störfum mínum lagt áherslu á gagnkvæmt traust, heiðarleika og umfram allt góð samskipti.

Embætti rektors Háskóla Íslands fylgir mikil ábyrgð. Verkefnin eru í eðli sínu fjölbreytt og krefjandi og geta tekið breytingum með skömmum fyrirvara þegar bregðast þarf við ytri aðstæðum. Í heild sinni rímar framtíðarsýn mín mjög vel við núverandi stefnu skólans, HÍ26, en ég hef dregið saman nokkur atriði sem ég tel að þurfi að leggja sérstaka áherslu á. Í sumum tilfellum kalla ég á ákveðnar kerfisbreytingar sem ég geri mér grein fyrir að geti verið umdeildar og þurfi að fullvinna í samráði og samtali við starfsfólk, nemendur og í sumum tilfellum aðila utan Háskóla Íslands. Ég mun tala opinskátt um þær breytingar sem ég sé fyrir mér, enda er nauðsynlegt að framtíðarsýn rektors á hverjum tíma mæti sem best væntingum nemenda og starfsfólks skólans.

Eðli málsins samkvæmt eru fjölmörg mikilvæg verkefni, málefni og hugtök sem ekki rata inn í þetta stutta yfirlit. Má þar nefna jafnréttismál og sjálfbærni. Ég hef átt í góðu samtali við helstu sérfræðinga skólans á þessum sviðum frá því að ég tók við hlutverki aðstoðarrektors vísinda (og síðar einnig samfélags), hef áhuga á þessum málaflokkum og geri mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Starfsemi Háskóla Íslands er mjög fjölbreytt og þarf í heild sinni að vera í stöðugri rýni og reglulegri endurskoðun. 

Ég vona að skilaboð mín séu skýr og þið upplifið ekki að þau drukkni í framandi undarlegum setningum, en hér vísa ég í verk eftir Huldu Hákon sem finna má í safnkosti listasafns Háskóla Íslands. Ekki hika við að hafa samband og spyrja ef eitthvað er óljóst eða ykkur finnst ég geta dregið fram með skýrari hætti sýn mína varðandi þær áherslur sem skipta ykkur máli.

Valdar áherslur

Fjölbreytt samfélag

Háskóli Íslands er fjölbreytt samfélag nemenda og starfsfólks með mismunandi þarfir, áhuga, færni, bakgrunn og reynslu. Öll eiga það sameiginlegt að þurfa jákvæða hvatningu, virðingu, stuðning og umburðarlyndi.

Tækifæri fyrir nemendur

Stíga þarf markviss skref varðandi breytingar á innra skipulagi skólans þannig að nemendur geti notið fjölbreyttrar sérfræðiþekkingar starfsmanna þvert á starfsemi skólans og sótt sér þekkingu og reynslu utan Háskóla Íslands, ekki síst erlendis, án hindrana.

Akademískir starfsmenn

Ég tel mikilvægt að leita leiða til að auka fjölbreytileika er kemur að starfsskyldum og mati á störfum akademískra starfsmanna, með aukna teymisvinnu að leiðarljósi, þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín.

Einföldun verkferla 

Síðastliðin ár hef ég sinnt fjölbreyttum verkefnum innan Háskóla Íslands og þannig verið í aðstöðu til að koma auga á ýmis tækifæri til að einfalda verkferla, ákvarðanatöku og innleiðingu breytinga.

Minna álag – aukin gæði

Innleiðing á gæðakerfi Háskóla Íslands, sem er í endurskoðun, gefur einstakt tækifæri til að samræma verklag, eins og kostur er, með það að markmiði að auka skilvirkni, minnka vinnuálag og auka enn frekar gæði náms, kennslu og rannsókna.

Bætt þjónusta

Nauðsynlegt er að setja aukinn kraft í verkefni á sviði upplýsingatækni sem styðja við þjónustu við nemendur og starfsfólk á öllum sviðum skólans.

Vöxtur

Tækifæri Háskóla Íslands til að halda áfram að vaxa sem alþjóðlegur rannsóknaháskóli felst ekki síst í aukinni samvinnu. Aukin samvinna þarf að byggja á trausti, heiðarleika og umfram allt góðum samskiptum.

Umgjörð rannsókna

Í sumum tilfellum er þörf á stærri skipulagseiningum rannsóknastarfs, doktorsnáms og nýliðunar í rannsóknum með það að markmiði að mynda sterkari umgjörð utan um doktorsnám og þjálfun nýdoktora sem stenst alþjóðlegan samanburð. Samhliða þarf að huga að innviðauppbyggingu þvert á fræðasvið.

Gæði námsleiða

Mikilvægt er að ábyrgð á gæðum einstakra námsleiða í grunn- og framhaldsnámi sé skýr. Regluleg endurskoðun námsleiða sé unnin í teymisvinnu þar sem þarfir nemenda séu hafðar að leiðarljósi þannig að námsleiðin undirbúi öll sem best undir störf eða frekara nám.

Hlutverk Háskóla Íslands

Háskóli Íslands gegnir í senn hlutverki sem alþjóðlegur rannsóknaháskóli og þjóðskóli með mikla samfélagslega ábyrgð. Fjármögnun er mikilvæg undirstaða fjölbreyttrar starfsemi og því þarf rektor Háskóla Íslands á hverjum tíma að eiga í virku samtali við stjórnvöld um forgangsröðun fjármuna.

Þróun fjármögnunarlíkans

Nýtt fjármögnunarlíkan háskólastigsins er enn í mótun. Nauðsynlegt er að halda áfram samtali við stjórnvöld um þróun líkansins, ekki síst hvernig meta megi samfélagslegt hlutverk, samfélagsleg áhrif, nýsköpun og forystuhlutverk Háskóla Íslands. Betri fjármögnun grunnrannsókna er einnig brýnt verkefni stjórnvalda sem þolir enga bið.

Fjármál Háskóla Íslands

Ég geng út frá því að stjórnvöld séu að vinna að því að finna leiðir til að fjármagna betur háskólakerfið á Íslandi og vilji vinna að því að stilla betur mismunandi breytur í líkaninu.

Við höfum ekki stjórn á ákvörðunum stjórnvalda hvers tíma en við höfum hins vegar fulla stjórn á því hvernig við förum með þá fjármuni sem okkur er treyst fyrir. Við höfum fulla stjórn á þeim kerfum sem við höfum sjálf byggt í kringum starfsemi okkar. Kerfin sem ég á við eru meðal annars deililíkan (hvernig fjármunum frá stjórnvöldum er dreift innan skólans), talning á vinnustundum fyrir kennslu og mat á vinnustundum sem fást fyrir námskeið.

Hvernig liti námsleiðin ykkar og stök námskeið innan hennar út ef við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að passa inn í öll þessi kerfi?

Framtíðarsýn

Ég er sannfærð um að við getum breytt því sem við höfum fulla stjórn á og þær breytingar myndu skila sér í auknu andrými starfsfólks og minna álagi á okkur öll. Þannig gætum við treyst öðrum fyrir hluta af námi nemenda okkar, aukið víðsýni nemenda og gefið þeim tækifæri til að móta sína eigin framtíð. Það á jafnt við hvort sem er í öðrum einingum innan Háskóla Íslands, á Rannsóknasetrum Háskóla Íslands um allt land, við aðra háskóla á Íslandi, starfsþjálfun í fyrirtækjum eða stofnunum eða við einhvern af þeim yfir 400 erlendu háskólum sem Háskóli Íslands hefur gert samstarfssamninga við.

Í þessu samhengi er rétt að minna á að í fjármögnunarlíkani háskólastigsins er breyta sem kallast Sókn í þágu háskóla og samfélags, breyta sem stjórnvöld gætu nýtt til að koma til móts við Háskóla Íslands meðan á innleiðingu stæði.

Ég hef fulla trú á því að við getum mótað þessa framtíðarsýn saman. Verkefnið er vissulega umfangsmikið og krefjandi. Þetta er vinna sem ég hefði áhuga á að leiða sem rektor Háskóla Íslands, hún hefst í deildum og námsbrautum og við þurfum öll að vera tilbúin að taka þátt, treysta hvert öðru og vinna saman.